27.04.2010
Þórunn
Danskir brjóstdropar hafa löngum verið kærkominn vinur í kveftíð landsmanna og kannast flestir við ágæti þeirra við leiðinda
hósta. Það sem kannski færri vita er að Danskir brjóstdropar koma að mjög góðum notum í sauðburð þegar hressa þarf
við lömb sem koma líflítil í heiminn. Á bæ einum í Vatnsdal eru Danskir brjóstdropar eitt af því sem alltaf er til þegar
sauðburður byrjar og að sögn bóndans hefur mixtúran bjargað lífi margra lamba.
Þegar líflítið lamb kemur í heiminn t.d. eftir erfiðan burð er putta dýft í mixtúruna og henni síðan makað inn í
munninn á lambinu og eins langt niður í kok og hægt er. Þetta rífur vel í og fær lömbin til að losa sig við slím sem situr
í þeim. Í góðu lagi er að gefa lömbunum nokkra svona "fingurslurka" þar til þau eru farin að halda haus.